Spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin.

Í tilefni páskahátíðarinnar er við hæfi að skyggnast inn í Orð Heilagrar ritningar!

Svo mælti Drottinn: Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og farið hana, svo að þér finnið sálum yðar hvíld. En þeir sögðu við viljum ekki fara hana Jerimía 6:16

Látið engan villa yður á nokkurn hátt. Því að ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist. Hann er sonur glötunarinnar, 2 Þessalónikubréf 2:3

Jesaja 53, spádómur um það sem koma átti, skrifað um 600 fyrir Krist.

1 Hver trúði því, sem oss var boðað, og hverjum varð armleggur Drottins opinber? 2 Hann rann upp eins og viðarteinungur fyrir augliti hans og sem rótarkvistur úr þurri jörð. Hann var hvorki fagur né glæsilegur, svo að oss gæfi á að líta, né álitlegur, svo að oss fyndist til um hann. 3 Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni, er menn byrgja fyrir andlit sín, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis. 4 En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan, 5 en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.

6 Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum. 7 Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum. 8 Með þrenging og dómi var hann burt numinn, og hver af samtíðarmönnum hans hugsaði um það? Hann var hrifinn burt af landi lifenda, fyrir sakir syndar míns lýðs var hann lostinn til dauða. 9 Og menn bjuggu honum gröf meðal illræðismanna, legstað með ríkum, þótt hann hefði eigi ranglæti framið og svik væru ekki í munni hans. 10 En Drottni þóknaðist að kremja hann með harmkvælum: Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi og áformi Drottins fyrir hans hönd framgengt verða.

11 Vegna þeirra hörmunga, er sál hans þoldi, mun hann sjá ljós og seðjast. Þá menn læra að þekkja hann, mun hann, hinn réttláti, þjónn minn, gjöra marga réttláta, og hann mun bera misgjörðir þeirra. 12 Fyrir því gef ég honum hina mörgu að hlutskipti, og hann mun öðlast hina voldugu að herfangi, fyrir það, að hann gaf líf sitt í dauðann og var með illræðismönnum talinn. En hann bar syndir margra og bað fyrir illræðismönnum.

Jesús

 

1 Kor 2:6-14 Andi vísdóms.

6 Speki tölum vér meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar, sem að engu verða, 7 heldur tölum vér leynda speki Guðs, sem hulin hefur verið, en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað oss til dýrðar. 8 Enginn af höfðingjum þessarar aldar þekkti hana, því að ef þeir hefðu þekkt hana, hefðu þeir ekki krossfest Drottin dýrðarinnar.

9 En það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann. 10 En oss hefur Guð opinberað hana fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs. 11 Hver meðal manna veit hvað mannsins er, nema andi mannsins, sem í honum er? Þannig hefur heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs andi.

12 En vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið. 13 Enda tölum vér það ekki með orðum, sem mannlegur vísdómur kennir, heldur með orðum, sem andinn kennir, og útlistum andleg efni á andlegan hátt. 14 Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega.

Andi mannsins er lampi frá Drottni, sem rannsakar hvern afkima hjartans. Orðskviðirnar 20:27

Rómverjabréfið 10 kafli, sem Páll postuli skrifar til Rómverja.

8 Hvað segir það svo? "Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu." Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum.

9 Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn - og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða. 10 Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.

11 Ritningin segir: "Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða." 12 Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann; 13 því að "hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða."

14 En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? 15 Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: "Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu." 16 En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu. Jesaja segir: "Drottinn, hver trúði því, sem vér boðuðum?" 17 Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists.

Það er orðið nokkuð ljóst að vígvöllur dagsins í dag er ekki síst mannshugurinn, þar sem reynt er leynt og ljóst að draga okkur frá götunni góðu og sannleikanum, því víða blikka villiljós með ótal freistingum og margir falla. En loforð Guðs standast. Sá sem sigrar mun eignast kórónu lífsins. 

Jakobsbréfið 1:12  Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins, sem Guð hefur heitið þeim er elska hann. 

13  Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: "Guð freistar mín." Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.  14  Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.  15  Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða. 

16  Villist ekki, bræður mínir elskaðir!  17  Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.  18  Eftir ráðsályktun sinni fæddi hann oss með orði sannleikans, til þess að vér skyldum vera frumgróði sköpunar hans. 

Mennirnir bregðast en það gerir Drottinn ekki, og fyrirheiti hans gilda ekki bara fyrir þetta líf heldur einnig hið komandi. 

Lokaorðin úr Davíðsálmi 119:105 Þitt Orð er lampi fóta minna og ljós á vegi mínum. 

Og Jóh 11:9 Jesús svaraði: "Eru ekki stundir dagsins tólf? Sá sem gengur um að degi, hrasar ekki, því hann sér ljós þessa heims.  10  En sá sem gengur um að nóttu, hrasar, því hann hefur ekki ljósið í sér." 

 


Bloggfærslur 21. apríl 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband